Hvað er Aukaæfingin?

Aukaæfingin er fjarþjálfun þar sem krakkar fá sendar æfingar sem þau framkvæma sjálf á tíma sem hentar þeim. Æfingarnar miðast við aldurshópinn 10-15 ára en að sjálfsögðu er krökkum á öllum aldri velkomið að skrá sig og vera með.

Í hverri viku fá krakkarnir sendar fótboltaæfingar í um 30 mínútur í senn ásamt aukaefni. Þetta æfingaform hentar breiðum hópi einstaklinga sem eru komnir mislangt í fótbolta. Þetta hentar bæði krökkum sem hafa mikinn metnað og vilja bæta sig sem og krökkum sem vilja hafa gaman og leika sér með bolta. Einnig getur þetta verið góð samverustund fyrir foreldra og börn að leika sér saman með bolta. Foreldrar geta stuðst við planið og sett upp æfingar fyrir börnin.

Fótboltaæfingarnar eru einstaklingsæfingar sem krakkarnir framkvæma eftir æfingum sem þau fá sent í gegnum app sem heitir Sportabler. Þar eru æfingarnar útskýrðar með texta og/eða skýringarmynd og svo myndbandi þar sem, fótboltastrákur/stelpa framkvæmir æfinguna.

Starfsmenn

Hallgrímur Jónasson

Hallgrímur hefur átt virkilega farsælan feril sem knattspyrnumaður. Hann var 9 ár í atvinnumennsku í Svíþjóð og Danmörku og á að baki 16 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Hallgrímur hefur þar að auki stundað þjálfun, bæði í yngri flokkum og meistaraflokki. Hann er með UEFA B þjálfaragráðu og er að leggja lokahönd á UEFA A gráðuna sína. Svo skoraði hann einu sinni tvö mörk á móti Portúgal.

Almarr Ormarsson

Með yfir 350 meistaraflokksleiki auk 20 leikja fyrir yngri landslið Íslands býr Almarr yfir gríðarlegri reynslu úr knattspyrnuheiminum á Íslandi. Þess fyrir utan hefur hann unnið í bókaútgáfu og vefmálum og passar upp á að allt efni frá Aukaæfingunni uppfylli þær kröfur sem við setjum okkur. Þegar Almarr var 14 ára klobbaði hann Ian Rush í knattspyrnuskóla.

Sveinn Margeir Hauksson

Sveinn kann að vera yngstur í hópnum en þrátt fyrir ungan aldur er hann nú þegar kominn með mikla reynslu úr meistaraflokks fótbolta. Þegar Sveinn er ekki sjálfur á æfingu eða að taka aukaæfingu geturðu yfirleitt fundið hann að leita að nýjum og skemmtilegum aukaæfingum á veraldarvefnum. Sveinn er sporðdreki.